Klúbburinn Geysir

Virðing – Víðsýni – Vinátta

Hugmyndafræðin

Upphaf klúbbhúsanna
Saga klúbbhúsanna hófst í New York árið 1947 er lítill hópur sjúklinga sem útskrifaðir voru frá stórum ríkisspítala, ákvað að hittast reglulega og reyna að vinna bug á einangrun og einmanaleika sem hrjáir marga geðsjúklinga. Þegar fjöldi þeirra jókst varð sífellt erfiðara að hittast á kaffihúsum eða bókasöfnum, svo þeir tryggðu sér fjármagn fyrir húsnæði og einum starfsmanni árið 1948. Í bakgarðinum var gosbrunnur og því var klúbburinn nefndur Fountain House.

Alþjóðlegt samstarf
Klúbburinn Geysir er í góðu samstarfi við önnur klúbbhús víðsvegar um heiminn, sem vinna eftir hugmyndafræði Clubhouse International. Haldnar eru Evrópuráðstefnur og heimsráðstefnur annað hvert ár þar sem farið er yfir ýmis málefni sem varða störf og áherslur innan samtakanna. Félagar og starfsfólk Geysis hafa verið öflugir þátttakendur á slíkum ráðstefnum til að koma skoðunum Íslands á framfæri varðandi málefni klúbbhúsa og bætt lífsgæði fólks með geðrænar áskoranir. Slíkt samtal er bæði gefandi og uppbyggjandi fyrir alla sem taka þátt.

Clubhouse International / Alþjóðasamtök klúbbhúsa
Árið 1994 var alþjóðleg miðstöð fyrir klúbbhúsin stofnuð. Markmiðið var að samræma starf klúbbhúsa, efla vöxt þeirra og gæði starfseminnar. Í dag eru um 320 klúbbar starfandi í 33 löndum og félagar um 100.000. Ráðstefnur og önnur alþjóðleg samskipti eru mótuð og útfærð með stuðningi Clubhouse International auk þjálfunar, vottunar og tölfræðilegrar úrvinnslu.

Clubhouse Europe / Evrópusamtök klúbbhúsa

Evrópusamtök klúbbhúsa voru formlega stofnuð árið 2013 með aðkomu einstakra klúbbhúsa í Evrópu og samtaka klúbbhúsa á Norðurlöndum. Aðdraganda stofnunar Clubhouse Europe má þá rekja allt til ársins 2012, þegar farið var í samstarf evrópskra og norrænna klúbba til að styrkja samstarf þeirra og gera sýnileg innan Evbrópu.

Stærsta verkefnið var ELECT verkefnið sem byggði á þeirri hugmynd að klúbbhús væru náms- og þekkingarsetur, sem styddu fólk til þess að takast á við lífið í sinni fjölbreyttustu mynd.

Árið 2021 voru 78 klúbbhús starfrækt í Evrópu og eru Norðurlandaþjóðirnar öflugar í starfi klúbbhúsa í Evrópu.

Úttekt frá CI

Sótt er um mat/úttekt á starfsemi klúbbsins til CI. Úttektin fer fram í þriggja daga heimsókn.

Hver úttekt er gerð af einum starfsmanni og einum félaga frá CI deildinni um framvindu og þróun klúbbhúsa.

Að heimsókninni lokinni fær klúbburinn skýrslu um þá þætti sem við getum bætt okkur í. Vottorð frá CI er aðeins gefið út til eins eða þriggja ára.

Ákvörðunin og niðurstöðar úttektarinnar er byggð á því hversu vel klúbbnum gengur að uppfylla staðla Clubhouse International.

Scroll to Top