Klúbburinn Geysir

Virðing – Víðsýni – Vinátta

Saga klúbbsins

Vaxandi klúbbur
Í meir en tuttugu ár hefur Klúbburninn Geysir markað spor sín í geðheilbrigðismálum Íslendinga með því að bjóða einstaklingum hlutverk, ábyrgð og tækifæri til þess að hafa stöðugleika í lífi sínu. Undirbúningur að stofnun Geysis hófst árið 1997.

Árið 1999 gaf Dómsmálaráðuneytið út skipulagsskrá fyrir klúbbinn og staðfesti formlega starfsleyfi klúbbsins. Starfsemin hófst í tveimur litlum herbergjum í Hátúni 10 og fljótlega myndaðist kjarni 10-15 félaga. Í janúar árið 2000 bauð Reykjavíkurborg klúbbnum til leigu 200 fermetra húsnæði á Ægisgötu 7 og starfaði hann þar í eitt ár. Í október árið 2001 stóð Kiwanishreyfingin fyrir landssöfnun í þágu geðsjúkra og fékk Geysir 10 milljónir í sinn hlut, það gerði klúbbnum kleift að kaupa 400 fermetra húsnæði í Skipholti 29 í félagi við Brynju hússjóð Öryrkjabandalags Íslands. Um áramótin 2021 – 2022 voru 480 skráðir félagar í klúbbnum.

Félagskapur
Klúbburinn starfar eftir gagnreyndri hugmyndafræði Clubhouse International og er tilgangur hans að virkja félaga klúbbsins til þátttöku í samfélaginu. Það er gert með því að halda uppi vinnumiðuðum degi með félögum, þar sem eru í boði fjölbreytt verkefni, sem öll miða að rekstri klúbbsins.

Hið innra starf byggir á gagnkvæmum stuðningi og virðingu fyrir öðrum. Að hjálpa og aðstoða aðra felur í sér sjálfshjálp. Í starfi Klúbbsins Geysis eru engar kvaðir lagðar á félaga umfram það sem hver og einn er tilbúinn að gangast undir. Starf klúbbsins byggir meðal annars á umhyggju, og eflingu félagsfærni, þess vegna er þörf fyrir hvern og einn félaga. Með því að gefa hverjum félaga tækifæri á því að nýta sínar sterkustu hliðar eflist viðkomandi til fjölbreyttrar þátttöku í samfélaginu. Félagarnir fá einnig aðstoð við húsnæðis- og atvinnuleit, stuðning vegna náms auk þess sem boðið er upp á félagslega dagskrá eftir vinnu dagsins alla fimmtudaga og einn laugardag í mánuði.

Er Klúbburinn Geysir staður sem hentar þér?
Fólk sem á eða hefur átt við geðrænar áskoranir geta orðið félagar í klúbbnum. Engin félagsgjöld eru í klúbbnum. Þegar þú gengur í klúbbinn gleðjumst við yfir þátttöku þinni. Félagsleg einangrun þarf ekki lengur að valda vanlíðan, því í klúbbnum átt þú félaga sem láta sér annt um velferð þína. Þú hefur allt að vinna. Taktu fyrsta skrefið í átt til betra lífs.

Í Klúbbnum Geysi leggur hver og einn sitt af mörkum eftir getu og vilja. Allir hafa eitthvað að gefa og hver félagi er mikilvægur í starfsemi okkar. Hugsanlega getur tilvera þín og líðan breyst til betri vegar.

Við horfum til þín og getu þinnar en ekki á sjúkdóminn þinn.

Þú skiptir máli!

Tólfta Evrópuráðstefna klúbbhúsa árið 2012

Klúbburinn Geysir sóttist eftir því að halda Evrópuráðstefnu Klúbbhúsa árið 2012.

Það voru mikil ánægju tíðindi þegar að klúbburinn varð fyrir valinu og ljóst var að tólfta Evrópuráðstefna Klúbbhúsa yrði haldin í Reykjavík.

Alls komu þátttakendur frá 28 klúbbhúsum í 13 löndum og 4 samtökum klúbbhúsa í Evrópu og Bandaríkjunum á ráðstefnuna. Heildarfjöldi erlendra ráðstefnugesta var 121 og 11 félagar frá Klúbbnum Geysi. Auk þess komu að ráðstefnunni 15 félagar og starfsmenn sem unnu á upplýsingaborði, sáu um kynningar og akstur milli klúbbsins og hótels.

Frú Vigdís Finnbogadóttir verndari Klúbbsins Geysis var sérstakur heiðursgestur við opnun ráðstefnunnar.

Félagar og starfsmenn Geysis tóku mikinn þátt í umræðum, bæði sem frummælendur og stjórnendur. Þá mönnuðu félagar í Geysi upplýsingaborð og sýndu áhugasömum húsakynni klúbbsins og kynntu þeim starfsemina.

Scroll to Top