Starfsemi
Samvinna – Samræður – Samhljómur
Ráðning til reynslu
Atvinnutækifæri
Klúbburinn Geysir er og hefur verið vettvangur starfsleitar fyrir félaga sína. Þau atvinnuúrræði sem klúbburinn hefur boðið félögum sínum er atvinna með stuðningi-AMS, sjálfstæð ráðning-SR og ráðning til reynslu-RTR. Atvinnu- og menntadeild, ATOM, starfar jafnhliða skrifstofudeildinni, þar sem félagar og starfsmenn vinna að því að ná tengslum við vinnuveitendur.
Ráðning til reynslu (RTR)
Ráðning til reynslu veitir félögum tækifæri til þátttöku á almennum vinnumarkaði.
RTR eru hlutastörf og tímatakmörkuð, að jafnaði 15-20 tímar á viku, í 6, 9 eða 12 mánuði. Þegar ráðningartímabili er lokið stendur starfið öðrum áhugasaömum félaga til boða.
Starfsmaður klúbbsins kynnir sér starfið og þjálfar viðkomandi félaga, vinnuveitanda að kostnaðarlausu. Að þjálfun lokinni fer félaginn á launaskrá hjá vinnuveitandanum.
Komi sú staða upp að félagi geti ekki mætt í vinnu sér klúbburinn um að útvega starfskraft í hans stað, hvort sem það er annar félagi eða starfsmaður klúbbsins. Vinnuveitandanum er þannig tryggt 100% vinnuframlag.
Starfsmaður klúbbsins veitir bæði félaganum og vinnuveitandanum stuðning á meðan á ráðningu stendur og fylgist með gangi mála. Jákvætt er ef félagi sækir klúbbinn samhliða RTR.
RTR ráðningarfyrirkomulagið er nýtt hér á landi en hefur verið notað í 27 löndum víðs vegar um heim með mjög góðum árangri, bæði fyrir félaga og atvinnurekendur.
Frá upphafi hafa um 50 félagar starfað í Ráðningu til Reynslu. Yfir 100 félagar stunda nú vinnu á almennum vinnumarkaði.
Atvinna með stuðningi og sjálfstæð ráðning
Við sjálfstæða ráðningu leitar félagi í klúbbnum eftir vinnu á eigin vegum, að eigin frumkvæði og ábyrgð. Viðkomandi fær allan þann stuðning, sem klúbburinn getur veitt honum og hann leitar eftir. Slíkur stuðningur getur t.d. verið meðmæli og aðstoð við að fylla út umsóknir auk aðstoðar við að útbúa starfsferilsskrár og fara með félögum í atvinnuviðtöl. Félagi sem fer út á vinnumarkað er áfram félagi í klúbbnum og hefur alla möguleika á að njóta þeirra réttinda og skyldna sem vera hans í klúbbnum tryggir honum.
Klúbburinn Geysir hefur átt gott samstarf við Vinnumálastofnun og AMS-atvinnu með stuðningi. Lögð er áhersla á að finna starf á almennum vinnumarkaði út frá áhuga og styrkleikum einstaklingsins.
Kynningar nýrra félaga er fast verkefni í klúbbnum og tímasetning þeirra fer eftir óskum hvers og eins. Óskum um kynningar er svarað í síma 551- 5166 og fundinn tími sem hentar.
Kynningarnar eru í höndum starfsmanns og félaga.
Í kynningu er farið um húsið, deildirnar skoðaðar, farið yfir starfsemi þeirra og uppbyggingu vinnumiðaðs dags. Að lokinni ferð um húsið er sest niður með viðkomandi, farið yfir hugmyndafræði Clubhouse International og spurningum svarað.
Húsfundir
Húsfundir eru haldnir á miðvikudögum kl. 14.30 – 15.30.
Húsfundir eru fundir þar sem félagar og starfsfólk geta rætt mál sem tengjast klúbbnum. Allir hafa tækifæri á að láta skoðun sína í ljós og hafa áhrif.. Húsfundir eru því mikilvægur vettvangur umræðu og skoðanaskipta innan klúbbsins. Allir félagar eru hvattir til að mæta á húsfundi!
Morgunfundir og ókeypis morgunmatur
Morgunfundir eru haldnir kl 09.00 – 09.15. Þá er m.a. farið yfir verkefni dagsins, og það sem hæst er á baugi, lesinn staðall dagsins og tilkynningum komið á framfæri.
Deildarfundir
Deildarfundir eru haldnir í hverri deild tvisvar á dag, kl. 09.15 og 13.15. Þá er farið yfir stöðu verkefna og félagar taka að sér þau störf sem liggja fyrir.